FréttanetiðFólk

Vægast sagt óheppileg uppákoma – MYNDBAND

Fyrir nokkru var haldinn ósköp venjulegur þingfundur í Georgetown í Texas, Bandaríkjunum, þar sem umræðuefni fundarins voru úrræði við smitsjúkdómum sem ónæmir eru fyrir sýklalyfjum. Það sem gerði fundinn hins vegar afar eftirminnilegan var uppákoma sem átti sér stað þegar þingkona tók til máls, í þann mund sem annar þingmaður steig út af fundinum til þess að skreppa á salernið. Maðurinn sem brá sér afsíðis gleymdi nefnilega að slökkva á hljóðnemanum sem hann bar og fengu því allir sem staddir voru í þingsalnum að heyra hvað fór fram á salerninu.

Þingkonan sem átti orðið átti erfitt með að bæla niður hláturinn á meðan maðurinn létti á sér enda ekki skrýtið miðað við aðstæður. Hún komst furðu vel í gegnum ræðuna sína með smá hlátri inn á milli og lauk svo máli sínu með því að hvetja alla nærstadda til þess að íhuga vel og vandlega orð sín, svo sprakk hún úr hlátri.

Það sem gerir þessa uppákomu frekar kaldhæðnislega er það að þarna var verið að ræða smitsjúkdóma og nauðsyn þess að efla varnir gegn þeim en maðurinn sem skrapp á salernið sleppti því greinilega að þvo sér um hendurnar eftir að hann lauk sér af. Við skulum vona að karlgreyið muni eftir því að slökkva á hljóðnemanum næst og enn frekar að hann þvoi sér nú um hendurnar.

Lóa Guðrún Kristinsdóttir
Fréttanetið