FréttanetiðFólk

Uppeldi eða OFBELDI? – 10 verstu ORÐ sem þú segir við börnin þín

Jóhanna Magnúsdóttir forstöðumaður félagsþjónustu Sólheimum í Grímsnesi  skrifar hugleiðingu á blogginu sínu sem allir foreldrar ættu að kynna sér. Hún gaf okkur leyfi til að birta pistilinn sem lesa má hér í heild sinni:

Uppeldi eða ofbeldi? – 10 verstu orð sem þú segir við börn
Ég rakst á góðan pistil í morgun eftir Maureen Healy, – og ætla að fá að láni lista sem ég fann þar um 10 verstu orð sem foreldrar segja við börn.  Það má að sjálfsögðu heimfæra það upp á afa og ömmur, – eða aðra sem umgangast börnin, en áhrif foreldranna eru yfirleitt mest, enda má segja þau komast næst „guðum“ í huga barns.  Ef ekki á að trúa foreldrum, hverjum þá?

Uppeldi eða ofbeldi?
Á námskeiði um ofbeldi, sem ég sótti fyrir mörgum árum,  heyrði ég fullorðna konu segja að andstæða uppeldis væri ofbeldi, og ég hef oft gripið í þá setningu síðan.  Orðið sjálft „uppeldi“ felur í sér uppbygginu – það að ala upp en ekki niður.   Ofbeldi,  er í raun bæling að bæla niður.  Hvað erum við að bæla við ofbeldi? –   Erum við ekki að bæla sál barnsins, eða bara hið hreina eðli barnsins þegar við notum niðurbrjótandi orð?   „Aðgát skal höfð í nærveru sálar.“

Að vera eða gera
Það er eitt sem er gott að gera sér grein fyrir, það er að það er munur á því að gera og vera.  Það er munur á að ljúga og vera lygari. –   Það tengist sjálfsmyndinni okkar, – og eftir því oftar sem við erum stimpluð með niðrandi orðum því dýpra samlagast það sjálfsmyndinni.  Barn sem er sífellt kallað vandræðabarn, – fer hægt og bítandi að trúa að það sé í sjálfu sér vandræði – og það er ekki langt síðan ég talaði við ungan herramann,  sem sagði mér það að hann væri vandamálið í fjölskyldunni. –   Pælið í því: „Ég er vandamál“ .. – Hvers konar grunnur er það að byggja á og hvernig er líðanin með þá sjálfsmynd? –

grein_johanna

Listinn
Hér er svo listinn kominn og hann kemur „á hvolfi“  þ.e.a.s. orðið sem er í 10 sæti kemur fyrst og það sem er í 1. sæti yfir verstu orðin sem foreldrar kalla börn sín.  Það er eflaust álitamál hvort þetta eru 10 verstu orðin, en þau eru að minnsta kosti vond og við eigum örugglega einhver orð sem við gætum bætt á listann,  en hér koma þau s.s. í öfugri röð.  –

10.       GRENJUSKJÓÐA

9.         ERFIÐ/UR  (erfitt að gera til hæfis)

8.         AUMINGI

7.         VÆLIN/N

6.         ÓMERKILEG/UR  (ekki verðmæt/ur)

5.         VANDRÆÐABARN  (vandamál)

4.         OFURVIÐKVÆM/UR  (veiklunda)

3.         DRAMADROTTNING

2.         ÞRJÓSK/UR

1.         FREKJA

 

Notum uppbyggileg og andstæð orð
Höfundur greinarinnar bendir á að þessi orð eigi öll andstæður – og það sé mikilvægt að nota uppbyggjandi orð í stað þessara sem eru niðurbrjótandi, -í stað þess að segja: „Ekki vera svona mikil frekja“ – segja „Vertu sanngjörn/sanngjarn“ eða eitthvað álíka.


Lítum í eigin barm
Við höfum eflaust flest verið kölluð eitthvað af þessu, – og/eða notað þessi orð á börnin okkar eða annarra.  Það er a.m.k. mín reynsla, – og síðastliðinn laugardag gerði ég mig „seka“ um að kalla barnabarnið mitt dramadrottningu, þó ég hafi lofað sjálfri mér að gera það ekki, en það skiptir miklu máli að vakna til vitundar og ekki bara hugsa: „Já „hinir eiga að laga þetta“ – við þurfum að gera það öll.

,,The voice of parents is the voice of gods, for to their children they are heaven’s lieutenants.” Shakespeare.

Ef smellt er HÉR er hægt að lesa  grein höfundar og meira um hana.


Lokaorð
Gott að hafa ofangreint i huga, – og eins og fram kemur, þá datt ég sjálf í eina af þessum gildrum nýlega – þó ég sé orðin mjög vel vöknuð. – Það lifir enn með mér að hafa verið kölluð „óhemja“ þegar ég var barn … og því miður notaði ég eitthvað af þessum orðum á mín börn í uppeldinu, en við lærum svo lengi sem við lifum, ekki satt? … Höfum í huga orðið „upp-eldi“ við erum að ala upp en ekki niður. Þessi orð eru ekki til upp-örvunar heldur til að stimpla og til niðurbrots.

Mig langar svo að taka það fram hér í „lokalokin“ að það skiptir auðvitað máli „hvernig“ orðin eru sögð, og viðmót okkar.  Það er ekki alltaf að orðin eru sögð í reiði – eða með leiðindum,  en orð hafa áhrif og orð geta orðið álög.

Heimild: Vefsíða Jóhönnu.