FréttanetiðFólk

TÍU heilsuboðorð Röggu Nagla… sem þú ættir að lesa NÚNA… ekki á morgun

Ragnhildur Þórðardóttir eða Ragga Nagli eins og við þekkjum hana er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Ragga gefur okkur frábær heilsuráð sem og æðislega uppskrift að ljuffengum haframjölsbotni með banana og vanillukremi.

Eftirfarandi viðtal við Röggu birtist upphaflega í Heilsu- og lífsstílsblaði Nettó en allar vörurnar í uppskrift Röggu sem sjá má hér neðst í grein fást hjá Nettó.

 

Hver er Ragga Nagli?  ,,Ragga Nagli er sálfræðingur, ræktarrotta, ferðafíkill, matargat, nautnaseggur. Eiginkona, systir, frænka, dóttir, sonardóttir, vinkona. Vinur vina sinna. Kaldhæðin. Sjálfsörugg. Yfirleitt jákvæð og glöð, en stundum pirruð og þreytt. Það kallast víst að vera mannlegur. 

Afhverju kölluð Ragga Nagli? ,,Það er komið frá manninum mínum. Þegar við bjuggum í Edinborg fyrir rúmum 10 árum þá æfðum við alltaf á morgnana. Við þurftum að vakna kl. 6 til að taka strætó í ræktina og það var alltaf ég sem dreif okkur á fætur. Hann sagði oft með stírurnar í augunum: ,,Þú ert svo mikill nagli, það eru aldrei neinar afsakanir í boði fyrir að sleppa æfingu. Þannig að nagla nafnið hefur ekkert með líkamsburði að gera heldur óþoli fyrir hverskyns afsökunum og réttlætingum til að stunda ekki heilsuna.”

 

10 ,,boðorð” Röggu varðandi heilsu og matarræði?

1) Hrósa sér fyrir litlu sigrana á heilsubrautinni. Hverja holla máltíð. Hverja æfingu.

2) Tileinka sér góðar matarvenjur: Borða allar máltíðir sitjandi og gefa sér góðan tíma í hverja máltíð

3) Halda sig við sömu matarvenjur sama hvar maður er. Í útlöndum, í fríi. Í veislum. Í matarboði. Í vinnunni.

4) Aldrei að versla svangur.

5) Ekki detta í ‘allt-eða-ekkert’ hugsanir.  Þú getur oftast æft þó þú hafir minni tíma.10 mínútur af hreyfingu er betra en 0 mínútur. Það er ekki allt ónýtt þó þú borðir nokkrar súkkulaðirúsínur. Þú þarft ekki að klára pokann.

6) Skipuleggja máltíðir fram í tímann. Elda í bunkum til að eiga tilbúið og koma í veg fyrir örvæntingarfullar ákvarðanir í hungurkasti.

7) Minna sig á af hverju það skiptir máli að ná markmiðum. Lesa ástæðurnar á hverjum degi. Draga fram þann lista í veikleika aðstæðum

8) Ekki vera með “bannlista” um matvæli. Allt sem “má ekki” veldur þráhyggjuhugsunum og við endum með að springa á limminu og hið bannað rennur niður í ómældu magni.

9) Leyfa sér eitthvað gott og sveitt með reglulegu millibili

10) Minna sig á að þetta er lífsstíll, gleði og langhlaup, ekki sprettur, meinlætalíf og svekkelsi.

 

Hefurðu alltaf verið mikið næringar- og ,,hreyfidýr”? Eða gerðist eitthvað sem kveikti ljósið? ,,Nei alls ekki. Í menntaskóla reykti ég pakka á dag, drakk um hverja helgi og hollusta var að fá sér grænmetislangloku frá Sóma í stað roast beef og remúlaði.  Þá var ég sko ,,all-in” í heilsunni.  Á síðasta ári í menntó steig ég mín fyrstu skref í líkamsræktarstöð og fann mig í lyftingunum. Galvaníseraðar járnstangir og rymjandi karlpeningur var minn tebolli.

Hvert er mikilvægi hreyfingar og góðs mataræðis? ,,Öll þekkjum við líkamleg áhrif hreyfingar og mataræðis á líkamlega heilsu. Betri svefn, lægri blóðþrýstingur, aukinn hreyfanleiki.  En það eru andlegu breytingarnar sem skipta svo miklu meira máli. Aukið sjálfstraust, skipulagning, lausnamiðaður hugsunarháttur,” segir Ragga.

Ertu með einhverjar góðar dæmisögur um einhvern sem þú hefur hjálpað, þarf alls ekki að nafngreina heldur bara gefa fólki dæmi um hvað hægt að gera? ,,Það sem gleður mig mest eru frásagnir sálfræðiskjólstæðinga minna sem hafa átt í vandræðum með ofát, tilfinningaát og laumuát og segja að loksins hafi þeir öðlast stjórn yfir matnum og innri hugarró með því að nýta sér verkfærin úr meðferðinni og uppskriftirnar mínar að hollustugúmmulaði sem heldur löngunum í skefjum.,,

Hvernig hreyfir þú þig og nærir og hvað mælir þú með við hinn almenna Jón Jónsson eða Jónínu Jónsdóttur?  ,,
Það sem hentar einum hentar ekki næsta manni, og þess vegna er mikilvægt að hver og einn finni hvað hentar sér. Ég er til dæmis á allt öðru stigi með mín markmið, næringu og hreyfingu en einhver sem era ð stíga sín fyrstu skref eða koma aftur eftir langa pásu, Ég læt mína skjólstæðinga skrifa niður markmiðin sín. Skrifa síðan niður af hverju það skiptir það máli að ná þessum markmiðum. Hvernig væri lifið öðruvísi ef það væri þegar búið að ná þessum markmiðum,” segir hún.

,,Síðan er mikilvægt að skrifa niður hverjar eru mögulegar hindranir og hvernig fólk ætlar að yfirstíga þessar hindranir. Hvernig er lífsstíllinn, heimilisaðstæður, vinnutími. Hverjar eru mögulegar lausnir. Eða er eitthvað í hugsanamynstrinu sem er að hamla okkur frá  að ná árangri. Hvernig ætlum við að endurskipuleggja hausinn til að komast áfram í þetta skiptið en ekki leyfa gömlum hugsunum að ýta okkur niður í svaðið.”

bananarvanilla

Hér gefur Ragga okkur uppskrift að haframjölsbotni með banana og æðislegu vanillukremi.

 

Haframjölsbotn Röggu:

40g haframjöl

1 msk NOW Psyllium husk

klípa salt

½ dl rifið zucchini

3-5 dl vatn (eftir þykktarsmekk)

½ tsk vanilluduft


Steiktir bananar

½ – 1 banani sneiddur

Vanilludropar eða vanilluduft

2-3 msk vatn

valfrjálst: 1 msk agave síróp, hunang eða sykurlaust síróp t.d Walden Farms

 

 Vanillukrem:

100g kotasæla

60g hreint skyr

1 msk NOW erythritol

vanilludropar eða vanilluduft

Aðferð:
1) Allt hráefni í graut sett í pott og hann kokkaður á eldavél eins og í gamla daga. Sett til hliðar og leyfa að kólna aðeins.

2) Hita pönnu, hella vatni svo það þeki botninn og bæta kanil útá og leyfa að malla í nokkrar sekúndur. Hella banana á pönnu og steikja þar til mjúkir.

3) Setja allt hráefni í krem í skál og hræra saman með töfrasprota/blandara þar til kotasælan verður mjúk eins og barnsrass.

Raða í lögum í eitt stórt ílát, til dæmis gamla sultukrukku eða tvö minni glös. Byrja á graut sem neðsta lag, svo banana og toppa með vanillukremi og gjarnan sáldra söxuðum hnetum yfir herlegheitin. Fyrirátsspennan fyrir þessum unaði gæti samt stuðlað að andvökunótt.

Heimasíða og Facebooksíða Röggu Nagla.

Netto.is