FréttanetiðHeilsa

Það er nauðsynlegt að venja BÖRNIN strax á heilbrigt mataræði – UPPSKRIFT

Eftirfarandi viðtal og uppskrift birtist upphaflega í Heilsu- og lífsstílsblaði Nettó.

 

Nafn: Vilhjálmur Gunnar Pétursson – Villi.
Starf: Einkaþjálfari og hóptímakennari hjá Reebok Fitness og heilsunuddari.
Aldur: 34 ára.
Hjúskaparstaða: Í sambúð með Oddnýju H. Arnold.
Menntun: Margmiðlunarfræðingur, ÍAK einkaþjálfari.

Vilhjálmur G. Pétursson, Villi, er mikill áhugamaður alls sem viðkemur hreyfingu og heilsu. Einnig finnst honum mikilvægt að venja börn á að borða hollan og góðan mat frá upphafi – án þess þó að fara út í öfgar.

„Áður en ég fór að vinna við þjálfun“, segir Villi, „þá vann ég mikið með börnum á frístundaheimilum og á leikjanámskeiðum. Einnig vann ég eitt sumar á Írlandi í sumarbúðum fyrir langveik börn. Fyrir fimm árum eignaðist systir mín svo litla stelpu og tveimur árum eftir það strák sem ég sé varla sólina fyrir. Ég hef verið mjög duglegur að leika við þau systkinin og geri það eins oft og færi gefst til – enda eru þau frábærir ærslabelgir og alltaf næg orka í hvaða leiki sem er.

Hollt mataræði er hvað mikilvægast fyrir börn og unglinga og í raun nauðsynlegt að venja þau strax á heilbrigt mataræði. Sem fullorðnir einstaklingar ættu þau þá að þekkja og vera meðvituð um mikilvægi þess að líkaminn fái eins góða næringu eins og völ er á. Því er það nauðsynlegt fyrir börn á öllum aldri að byrja daginn á hollum og næringarríkum mat og einnig þarf nesti dagsins að vera af sama toga til að börnin haldi einbeitingu sinni í skólanum. Ef hann er of sykurríkur eða næringarsnauður er hætta á að einbeitingin sé eftir því.

Ég myndi mæla með að byrja á hafragraut með einhverju góðu út í t.d. skera niður banana eða setja nokkrar rúsínur út í og svo strá smá kanil yfir. Það þarf ekki alltaf að vera það sama og gott að breyta til og gaman að prófa sig áfram með nýjar samsetningar. Lýsi og D-vítamín ætti einnig að vera fastur liður á morgnana.

Skólanestið þarf svo ekki endilega að samanstanda af samlokum eða öðru brauðmeti heldur gott að nýta afganga frá kvöldmatnum daginn áður. – Til dæmis ef fiskibollur „a la mamma“ voru í kvöldmatinn væri það kjörinn hádegismatur! Tvær bollur auk grænmetis með til að naga, eins og gulrót eða agúrkubita, og svo er gott að hafa með möndlur eða hnetublöndu.Síðdegissnarlið gæti verið banani, epli eða appelsína.

Vatnið best
Til drykkjar er vatnið alltaf besti kosturinn og til bragðbætis er gott að skera sítrónusneiðar eða aðra sítrusávexti út í brúsa og fylla af vatni til að taka með í skólann. Mikilvægt er fyrir fjölskyldur að hreyfa sig saman því börn horfa upp til foreldra sinna og ef foreldrarnir eru duglegir að hreyfa sig og hafa börnin með – þá eru meiri líkur á því að krakkarnir haldi því áfram þegar þau eldast. Í stað þess að gefa þeim síma, tölvur eða tölvuleiki að gefa þeim frekar hjól eða skrá þau í íþróttastarf af einhverjum toga.

Það er ekkert leiðinlegra en að hanga inni alla daga límdur fyrir framan sjónvarpseða tölvuskjá. Fyrir fjölskylduna þá er hægt að fara út að ganga, skokka, hjóla, synda, fara í léttar fjallgöngur t.d. á Úlfarsfell. Skemmtilegar æfingar sem krakkar sem og fullorðnir geta gert eru t.d. armbeygjur – planki – jumping jacks – framstigsganga – könglulóarganga og burpees svo eitthvað sé nefnt.

Á laugardögum hjá okkur í Reebok Fitness í Holtagörðum erum við til dæmis með tíma fyrir 3-9 ára börn. Þrír mismunandi tímar eru í boði sem eru Krakka-Zumba, Krakka Yoga og Krakka CardioFit en það síðastnefnda er létt stöðvaþjálfun. Í þessum tímum fá krakkarnir góða hreyfingu á meðan mamma og pabbi sækja aðra tíma á meðan. Ég tel best að leyfa ungviðinu að prófa sig áfram í hverskyns íþróttum og reyna að hafa fjölbreytileikann að fyrirrúmi þar sem áhugi hvers og eins er mismunandi.
nammi_villi


Laugardagsnammi Villa
Allir þekkja nammidaginn sígilda en í staðinn fyrir að kaupa sælgæti fyrir börnin er hægt að búa til hollari kost og fylgir hér með holl, bragðgóð og einföld uppskrift:

1 Banani á mann
Hnetusmjör – lint
Kókosmjöl
Valhnetur – muldar
Dökkur súkkulaðispænir

Aðferð: Bananinn er smurður með hnetusmjöri og er svo rúllað upp úr hnetumulning, kókosmjöli en að lokum er súkkulaðispæninum stráð yfir. Gott er að skera svo bananann í sneiðar og bera fram. Einnig er gaman að leyfa börnunum að gera þetta sjálf – þetta er það einfalt!

Nettó

Villi er á Facebook