FréttanetiðMatur & drykkir

Veitingahúsið SUMAC stórkostlegt ævintýri

- Veitingarýni Fréttanetsins
Sumac Laugavegur 28

A++
– Frábært andrúmsloft

- Svakalega góður og framandi matur
- Topp þjónusta
- Topp staðsetning

Fréttanetið gerði sér ferð á glænýjan stað sem ber heitið Sumac. Staðurinn, sem er staðsettur á Laugavegi 28 beint á móti versluninni Brynju, er hannaður af Hálf­dáni Peter­sen.  Væntingarnar voru vægast sagt miklar áður en inn á Sumac var komið því eigandi staðarins er jú enginn annar en fyrrum  þjálfari íslenska kokkalandsliðsins Þráinn Freyr Vigfússon. 

braud_sumac1
Bragðgott ævintýri.
Þegar inn á staðinn er komið blasa við svuntuklæddir þjónar og kokkar sem sjá til þess að allir gestir upplifi einstakt bragðgott ævintýri.

Kom ánægjulega á óvart
Sumac kom heldur betur ánægjulega á óvart þegar maturinn var annars vegar og svo skemmir ekki fyrir að fallega hannaður staðurinn tekur þétt utan um gesti um leið og þeir stíga inn fyrir dyrnar.  Vel lyktandi kolagrillið er án efa hjarta staðarins staðsett í miðju rýminu þannig að gestir eru færir um að sjá þegar maturinn eldaður er sem gerir stemninguna einstaklega skemmtilega og lifandi.

IMG_3466

Lamb með vínberjum og möndlum. Hér verður byrjað á aðalréttinum sem var eftirminnilega góður og einstaklega vel úti látinn. Lambarifjurnar voru bornar fram með linsubaunum, súrsuðum vinberjum og möndlum. Með lambinu fylgdi kartöflusmelki með söxuðum koríander og choriso kryddi.

IMG_3441
Skemmtilegur smáréttur.  Grænar ólívur marineraðar í saltaðri sítrónu fengu bragðlaukana heldur betur til að titra af tilhlökkun áður en aðalréttirnir voru bornir fram.

IMG_3470
Frábært andrúmsloft. Þjónustan var mjög góð. Starfsfólk áberandi afslappað, vel upplýst um vín og mat.

IMG_3444
Puttamatur upp á tíu. Harrisan kjúklingavængirnir með pistasíuhnetum, kóríander og lime eru í einu orði sagt stórkostlegir. Brakandi ferkst bragðið svoleiðis leikur við sálina.

IMG_3447
Réttur sem allir verða að prófa á lífsleiðinni. Flatbrauð Sumac er grillað á kolagrilli staðarins. Brauðið er fullkomlega eldað með sesamfræjum og olíu.  Það er borið fram með tvennskonar ídýfum; hummus með olífuolíu og ristuðum kjúklingabaunum og paprikumús með dillolíu. Þessi þrenna toppar allt sem hægt er að toppa og svo er líka gaman að borða þennan rétt.

braud_sumac
Hér útbýr Þráinn Freyr fyrrum þjálfari kokkalandsliðs Íslands umrætt flatbrauð staðarins í opnu eldhúsinu.

IMG_3448
Trylltur. Hummusinn er svakalegur.  Fullkominn eins og reyndar staðurinn í heild sinni.

IMG_3449
Grillað flatbrauð za ́atar. Flatbrauðið er miklu betra en myndin sýnir. Þú ert að fara að prófa það ekki seinna en í gær.

IMG_3453
Sætir með svuntur. Kokkarnir litu allir út eins og súpermódel, klæddir í svuntur og sérmerktar skyrtur eins og þjónarnir í salnum sem sýnir greinilega að starfsfólkið, hvaða stöðu sem það gegnir, er ein samhent heild. Kokkarnir elda matinn fyrir opnum tjöldum í miðju staðarins en þar er staðsett vel lyktandi kolagrill sem gerir andrúmsloft Sumac einstakt.

IMG_3456
Grillað eggaldin. Bakað eggaldin er staðsett undir salatinu á mynd en það er eldað á kolagrillinu góða. Með því er framreidd tahini jógúrtsósa, ruccolakál, granata epli og furuhnetur. Rétturinn er fagur á að líta, léttur í maga og bragðgóður.

IMG_3462
Lax sem gleður. Hægeldaður laxinn er svakalega góður með kúmvat sítrusávöxtum, fennel froðu og sítrónupipar. Sjúklega góð samsetning fyrir fólk sem kann að meta hágæða fisk.

IMG_3460
Laxinn kom skemmtilega á óvart fyrir bragðlaukana og ekki síður augað.

is_1
Jógúrtís sem fær þig til að gleyma stað og stund.  Ísinn er ævintýralegur á bragðið og vel útilátinn eins og reyndar allir réttir staðarins.  Ísinn er borinn fram með sítrónu, jarðaberjum og sumac kryddinu sem staðurinn er jú nefndur eftir.

Ef þú vilt upplifa dásamlegt ævintýri skaltu gera þér ferð á Sumac. Þú verður ekki fyrir vonbrigðum, svo mikið er víst.

snapp

Ellý Ármanns
Snapchat: earmanns
e@frettanetid.is