FréttanetiðMatur & drykkir

Hún bakar æðislega súkkulaðiköku… á aðeins 5 mínútum… þessi er sú allra besta – UPPSKRIFT

Helena Gunnarsdóttir heldur úti æðislegu matarbloggi sem ber heitið Eldhúsperlur. ,,Ég hafði lengi ætlað mér að búa til síðu þar sem ég gæti sett allar uppáhalds uppskriftirnar mínar á einn stað sem og deilt tilraunum mínum í eldhúsinu með fleira fólki. Ég leitast ávallt við að vera með einfalda matargerð þar sem hráefnin fá að njóta sín og er lítið fyrir að flækja hlutina að óþörfu í eldhúsinu,,” segir Helena.

Hér gefur hún okkur dásamlega peru- og súkkulaðikökuuppskrift sem hægt er að útbúa á aðeins 5 mínútum áður en hún er bökuð í ofni í 30 mínútur.

sukkuladikaka1
,,Það er alveg upplagt að skella sér inn í 5 mínútur í góða veðrinu og hræra í þessa köku til að bera fram með kaffinu eða sem eftirrétt. Það er svo alveg nauðsynlegt að bera hana fram volga með góðum vanilluís.”

Fimm mínútna súkkulaðikaka með perum
 – bollamálið sem Helena notar er 2.4 dl
– uppskriftin dugar vel sem eftirréttur fyrir 6 fullorðna

  • 2 bollar hveiti eða fínmalað spelt
  • 1 bolli sykur eða hrásykur
  • 1/2 bolli ósætt kakó
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 stór egg
  • 1 stór dós niðursoðnar perur (safinn og allt)
  • 50 gr. 70% súkkulaði brotið í litla bita

Aðferð: Blandið þurrefnunum saman í skál, bætið eggjunum út í ásamt safanum af perunum og hrærið saman þar til deigið er komið saman. Notið sleif eða písk, rafmagnsgræjur eru óþarfar, passið þó að hræra ekki of lengi, bara rétt þannig að deigið sé að mestu slétt. Hellið perunum í smurt eldfast mót, ég skar þær í tvennt en þær mega alveg vera heilar.

Hellið deiginu yfir og stingið súkkulaðimolunum jafnt yfir kökuna.   Bakið við 160 gráður með blæstri í 30 mínútur. Hitinn og baksturstími fer þó alltaf eftir ofnum.

Berið kökuna fram heita með vanilluís eða rjóma.

Eldhúsperlur.com - frábært matarblogg Helenu.

snapp

Ellý Ármanns
Snapchat: earmanns
e@frettanetid.is