FréttanetiðHeilsa

Ekki fara á enn einn KÚRINN

Ragnhildur Þórðardóttir eða Ragga Nagli eins og við þekkjum hana er klínískur heilsusálfræðingur, einkaþjálfari og höfundur Heilsubókarinnar sem hún selur eins og heitar lummur enda snilldar eintak.  Hún býður upp á frábæra nýjung þegar kemur að sálfræðimeðferðum en hana veitir hún í gegnum internetið eins og sjá má hér.

RAGGAmynd
Ragga hefur tekið sjálfa sig í gegn og leiðbeinir nú öðrum.

Heilsuráð Röggu Nagla

1. Hegðunarmarkmið frekar en útkomumarkmið
Settu þér hegðunarmarkmið frekar en að einblína eingöngu á útkomumarkmið. Tileinkaðu þér heilsuhegðun eins og að versla hollustu, borða heilsusamlegar máltíðir, minnka skammtana ef þú vilt grennast, sleppa sykruðum gosdrykkjum og sælgæti, og mæta á allar æfingar vikunnar. Það eru þessar uppsöfnuðu litlu breytingar á hegðun sem verða að lífsstíl og leiða til árangurs.

2. Vigtin er ekki eini mælikvarðinn
Ekki einblína á vigtina sem eina mælikvarða á árangur. Vigtin segir ekkert um hlutfall vöðva og fitu í samsetningu líkamans né vökvabúskap hans þann daginn. Hún segir eingöngu hvað líkaminn er þungur nákvæmlega á þessu augnabliki. Vigtin sagði örugglega eitthvað annað í gær og mun sýna enn annað á morgun. Taktu frekar myndir, notaðu fötin, málband, spegilinn og eigin upplifun sem viðmið fyrir líkamlegar breytingar.

3. Hugarfarið skiptir máli
Lykillinn að langtímaárangri er að tileinka sér það hugarfar að þetta sé lífsstíll en ekki “átak” með síðasta söludag. Þú borðar hollt megnið af tímanum af því þetta er lífsstíll. Það þýðir að þú getur fléttað nokkur sukk inn í planið með góðri samvisku því við getum ekki verið í fangelsi þurrelsis í mataræði meðan náunginn úðar í sig kræsingum með súkkulaðitaum út á kinn. Það er partur af prógrammet að taka þátt í gleðinni í afmælum, árshátíðum og brúðkaupum en með hófsemi sem leiðsögumann. Svo detturðu aftur í hollustuna án þess að næra sektarkennd eða aðhyllast skaðastjórnunaraðgerðir.

4. Lærðu á hugsanir þínar og veikleika
Ekki fara á enn eitt planið, kúrinn, æfingaprógrammið nema hreinsa til í hausnum. Komdu auga á í hvaða aðstæðum þú kokkar upp réttlætingar fyrir að skunda af beinu brautinni. Áttaðu þig á hvenær þú leyfir tímabundnum hindrunum að breytast í langvarandi afsakanir. Vertu tilbúinn með uppbyggjandi mótrök við þessum hugsunum og áhrifaríkar aðferðir til að yfirstíga hindranir. Skrifaðu á minnismiða hvers vegna það skiptir þig máli að ná markmiðum þínum, og lestu hann yfir á hverjum morgni til að hvetja þig áfram.

Hrósaðu þér
Mundu að hrósa sjálfum þér fyrir allar litlar breytingar á hegðun og hugsun. Hrósaðu þér fyrir að standast freistingar, fyrir að mæta á allar æfingar vikunnar, fyrir að borða hollar máltíðir. Hrósið eflir sjálfstraust, styrkir hegðun fyrir næstu skipti og hjálpar við að festa breytt hegðunarmynstur og nýja hugsun í sessi.

Kynntu þér fjarsálfræði Röggu hér.
Vefsvæði Röggu.

RAGGABOK