FréttanetiðFólk

Missti 30 kg á 8 mánuðum – MYNDIR

Mollý Jökulsdóttir, 21 árs, verslunarstjóri hjá Starbucks í Kaupmannahöfn var virkilega óánægð með líkama sinn á unglingsárunum. Hún þyngdist hratt eftir að hún eignaðist kærasta og byrjaði að búa. Þessi dugmikla kona er sátt í eigin skinni í dag en fitness íþróttin er hennar ástríða.

mm1

Ég var alls ekki feit
,,Ég veit ekki hvenær ég leit fyrst í spegil og hugsaði að ég væri feit, eða hvað varð til þess. Þegar ég lít til baka í dag, sé ég að ég var alls ekki feit. Ég var bara venjuleg stelpa með komplexa sem leiddu til óheilbrigðs sambands míns við líkamann minn,” segir Mollý þegar samtal okkar hefst.

6m

,,Ég var mjög virkur unglingur, æfði alls kyns íþróttir og dans á keppnisplani í gegnum alla mína grunnskólagöngu ásamt mínu fyrsta mennskólaári. Í gegnum grunnskólann er ég í minningunni ,,Mollý þessi búttaða” eða ,,Mollý sem er svona venjuleg”.  Af einhverjum ástæðum var það að vera ,,bara svona venjuleg” bara kurteisari leið til að segja að einhver væri feitari en hinir,” segir hún.

Byrjaði að kasta upp
,,Barátta mín við eigin líkama hefur fylgt mér frá því ég man eftir mér. Ég fór í gegnum ,,allan pakkann”. Fyrsti kúrinn sem ég man eftir var að borða lítið sem ekkert og fara út að hlaupa í tíma og ótíma. Þarna var ég 14 eða 15 ára. Mamma fór að taka eftir því að vildi ekki borða kvöldmat kvöld eftir kvöld. Hún skikkaði mig því til að setjast niður og  borða, þá lét samviskubitið á sér kræla og mér leið eins og hver máltíð gerði mig feitari. Þarna var samband mitt við mat orðið óheilbrigt. Ég byrjaði að kasta upp því litla sem ég ofan í mig lét og hélt áfram að léttast. Mér fannst ekkert vera að og man eftir að hugsa ,,ég borða stundum og er því ekki með anórexíu og ég kasta ekki öllu upp og er því heldur ekki með búlimíu”. Sem betur fer uppgötvaði mamma fljótlega þennan nýja vana og tók í taumana.”

,,Árin eftir sveiflaðist ég í þyngd, prufaði allskyns kúra og skyndilausnir sem hver var annarri verri. Ég var gjörsamlega heltekin af því hvernig líkaminn minn leit út og bar mig saman við allt og alla mér sjálfri í óhag.”

Fyrsti kærastinn
Sumarið eftir fyrsta ár í menntó kynnist ég svo fyrsta kærastanum mínum. Við fórum fljótt að búa og með því kom hin umtalaða sambandsfita. Ég hætti að æfa og hætti algjörlega að spá í því sem ég lét ofan í mig. Af einhverjum ástæðum þróaði ég virkilega óheilbrigt samband við mat, það er a ðsetja  ég borðaði ekki vegna þessa að ég var svöng, heldur ,,af því bara”. Mér fannst, og finnst enn, gaman að baka og er mikill sælkeri, svo nú þegar ég var byrjuð að búa bjó ég okkur tveimur allskyns góðgæti sem yfirleitt var í skammtastærðum fyrir 4-6 manns.  Á einu ári varð ég því 100 kg  168cm há með næstum enga vöðva en ég vil ekki einu sinni vita hversu há fituprósentan mín var,” segir Mollý.

Fékk nóg
,,Ég veit ekki hvað varð til þess að ég vaknaði upp frá matar-martröðinni en það gerðist á einni nóttu –  bókstaflega. Ég vaknaði einn morguninn rétt fyrir útskriftina mína frá menntaskóla og var þá komin með nóg,” útskýrir hún einlæg.

8m

Lífið byrjaði þarna
,,En ég vissi ekki hvert ég átti að snúa mér enda búin að vera styrtaraðili hinna ýmsu líkamrætktarstöðva í fortíðinni án árangurs. Það var svo fyrir algjöra tilviljun að ég rataði inn í Crossfit Reykjavík. Crossfit bjargaði mér. Frá fyrsta degi var mér engin miskunn sýnd, enginn vorkenndi mér fyrir að vera of þung, það var eins og svellkaldur kinnhestur en á góðan hátt. Ég gleymi ekki tilfinningunni þegar ég mætti í fyrsta tímann minn í byrjendahópnum og Evert Víglunds gekk inn. Ég vissi að það var byrjunin á nýju lífi.”

2m

30 kg fóru á 8 mánuðum
Spurð um æfingarnar svarar Mollý: ,,Ég byrjaði strax að æfa 3-4 sinnum í viku og varð fljótt hluti af Paleo-mataræðinu. Ég sá árangur mjög fljótt, ekki aðeins líkamlegan heldur á æfingum. Ég gat lyft aðeins þyngra eða endurtekið æfinguna aðeins oftar og það hélt mér gangandi. Ég missti 30 kg á 8 mánuðum með Crossfit og bætti við mig mikum vöðvamassa. Ég varð gjörsamlega húkkt. Á sama tíma fékk ég svo vinnu á Gló, veitingahúsinu hennar Sollu Eiríks. Ég er viss um að það á stóran part í því hversu vel mér gekk að léttast, enda með frábært fæði innan handar alla daga vikunnar,” segir hún ánægð.

,,Næsta árið viðhélt ég árangrinum með hreinu mataræði og crossfit. Ég passaði mig á hveiti, sykri og þessum venjulegu ,,no-go” hlutum, borðaði prótín og fituríka fæðu en mikið flóknara var það ekki.”

3m

Flutti til Danaveldis
,,Í byrjun árs 2014 flutti ég til Danmerkur og hélt mínu strik og fann mér crossfit stöð svo ég gæti haldið áfram að æfa.  Ég fann hinsvegar að ég var aðeins farin að missa móðinn og leggja örlítið minna á mig á æfingum og slaka á í mataræðinu. Hugsanir um skyndilausnir létu aftur á sér bera og komplexar tóku yfirhöndina. Ég var ekki enn komin með draumakroppinn og fannst ég standa í stað,” viðurkennir hún.

Fitness-konur draumakroppar
,,Ég fór því að hugsa hvað væri draumakroppur í mínum huga. Eftir nokkrar vangaveltur komst ég að þeirri niðurstöðu að draumakroppur í mínum huga væri útlit fitness-stelpnanna.  Það varð úr að ég ákvað að takast á við það verkefni og þar er ég stödd í dag.  Ég er þannig gerð að ég verð að hafa einhvers konar takmark til að gefast ekki upp.”

,,Í dag æfi ég mjög stíft og vigta allt sem ég borða enda byrjuð að skera niður fyrir hugsanlegt fitness-mót. Ég hef ekki hugsað mér að lifa svona það sem eftir er þar sem það er ekki gerlegt. Planið er að ná takmarkinu og viðhalda því svo það sem eftir er með þeirri vitneskju sem ég hef aflað mér í gegnum árin.”

instame1

Mikilvægt að átta sig á því að allt er mögulegt
,,Ég held að það sé mikilvægt að átta sig á því að allt er mögulegt. Fortíðin skiptir engu máli og að það er aldrei of seint að byrja. Líkamrækt og skynsamlegt mataræði á að vera partur af þínu daglega lífi, ekki hlutur sem þú ætlar alltaf að fara að ,,taka þig á í”. Ef að þú lifir vel og rétt 80% af tímanum er ekkert því til fyrirstöðu að gera það sem þér sýnist hin 20%. Ég lifi eftir mottóinu ,,Þú verður ekki óheilbrigð af einni óhollri máltíð, rétt eins og þú verður ekki heilbrigð af einni hollri”.  Ég held að það sé ekkert til sem heitir ,,skyndilausn til framtíðar”, maður verður að átta sig á vandamálinu, sætta sig við það og gera eitthvað í því. Afneitun er versti óvinurinn. Þegar maður verður samdauna vandamálinu er maður hætt kominn.”

,,Ég veit að netið er yfirfullt af sögum sem mínum en ég held að það sé mikilvægt að minna á það er allt mögulegt. Settu þér raunhæf markmið og taktu einn dag í einu. Ekki búast við árangri á einu degi, einni viku eða einum mánuði. Gefðu sjálfri þér eða sjálfum tækifæri á að standast væntingarnar sem þú setur. Róm var ekki byggð á einum degi og heldur ekki þú,” segir Mollý að lokum.

snapp

Ellý Ármanns
Snapchat: earmanns
e@frettanetid.is