FréttanetiðHeilsa

Lestu þetta ef börnin þín eru MATVÖND – þau gætu verið þunglynd…eða með kvíða

Ný rannsókn sem framkvæmd var við Duke-háskóla í Bandaríkjunum sýnir fram á að fylgjast þarf vel með börnum sem eru matvönd. Í rannsókninni, sem birt er í Journal Pediatrics, kemur fram að börn sem eru matvönd gætu verið að glíma við sjúkdóma eins og kvíða og þunglyndi.

Fylgst var með 3400 börnum á aldrinum 2 til 5 ára við framkvæmd rannsóknarinnar. Tuttugu prósent þeirra voru matvönd að mati þeirra sem að rannsókninni stóðu en þeir skilgreina matvandan einstakling sem manneskju sem vill bara borða úr einstökum fæðuhópum eða á í erfiðleikum með að borða með öðrum vegna sérþarfa þegar kemur að mat.

Þeir sem að rannsókninni stóðu heimsóttu börnin aftur tveimur árum eftir að rannsóknin hófst og þá kom í ljós að börn sem voru mjög matvönd í leikskóla voru mun líklegri til að vera haldin kvíða seinna meir.

William Copeland, prófessor við Duke-háskóla, segir þetta áhyggjuefni í samtali við Huffington Post.

„Foreldrar og læknar þurfa að afla sér frekari upplýsinga um matvanda einstaklinga. Fylgja því vandamál? Hve miklu raskar þetta í fjölskyldulífinu?“ spyr hann.