FréttanetiðFólk

Íslensk meri eignaðist folald með SEBRAHESTI – MYND

Íslenski hesturinn er einstakur fyrir margar sakir. Hann er einstaklega harðgerð og dugleg skepna auk þess að búa yfir fleiri gangtegundum en aðrar hestategundir.

Íslenski hesturinn þykir vera smágerður en hefur á síðustu árum stækkað mjög mikið sem er afrakstur ræktunarstarfs og góðrar umhirðu. Á nítjándu öld var íslenski hesturinn töluvert minni en hann er í dag auk þess sem hann bjó ekki yfir þeim miklu hæfileikum sem nú hefur náðst fram með frábæru ræktunarstarfi.

Á síðusta áratug 19. aldar keypti skoski prófessorinn James Cossar Ewart skjótta íslenska meri sem hét Túndra. Prófessorinn var enginn sérstakur áhugamaður um íslenska hesta en hafði töluverðan áhuga á sebrahestum og átti tvo slíka á búgarði sínum. Íslensku merina keypti hann til að gera tilraun með að rækta blendingja íslenskan sebrahest. Ástæðan er líklega sú að hann hefur talið íslenska hestinn í heppilegri stærð til að blandast sebrahestinum auk þess sem hann er auðtaminn og geðgóður sem eru eiginleikar sem algjörlega skortir í sebrahesta.

Íslenska merin eignaðist tvö sebraafkvæmi, annað fæddist árið 1899 og hitt skömmu eftir aldamót. Annað var selt til Pakistan og hitt til Þýskalands. Flest bendir til þess að tilraunin hafi mistekist og íslenski sebrahesturinn hafi ekki erft geðprýði móður sinnar.