FréttanetiðFólk

Íslensk fjölskylda býður upp á 100% hreint kjöt… þar sem engin LYF … eða önnur íblöndunarefni koma við sögu

Hjónin Guðbjörg Guðlaugsdóttir og Hilmar Þór Sunnuson keyptu bæinn Lindarbrekku í Staðarsveit á Snæfellsnesi síðsumars árið 2014.  Okkur lá forvitni á að vita af hverju hjónin ásamt fjórum börnum þeirra ákváðu að flytja í sveitina þar sem þau rækta og selja kálfakjöt með áherslu á 100% hreinleika því þeim er sannarlega umhugað hvaðan maturinn kemur og að dýrin búi við góðan aðbúnað.

kjot4

Lindarbrekka selur landbúnaðarafurði og sendir kaupanda kjötið sem er 100% hreint beint frá býli með Landflutningum.

 

Hjónin rækta og selja margrómað kálfakjöt sem er fullkomið á grillið í sumar en þau halda úti nýrri heimasíðu  Lindarbrekka.is þar sem allir sem vilja geta keypt kjötið frá þeim og fengið það sent frítt heim að dyrum.  Við erum að tala um æðislegar steikur, gúllas, snitsel, Tbone og svo lengi mætti telja.

Hefur alltaf haf áhuga á mat
,,Ég hef alltaf haft áhuga á mat og er meðal annars matartæknir að mennt,” segir Guðbjörg og heldur áfram: ,,Hilmar vann sem vélvirki og hans aðaláhugamál eru gamlar vélar sem jafnvel aðrir sjá sem rusl og er hann ótrúlegur í að halda slíkur gangandi, einnig er hann vandvirkur og handlaginn og það nýtist vel á býlinu,” segir Guðbjörg þegar tal okkar hefst.

fjolskylda_lindarbrekka

Bjuggu á Kleppsvegi í blokk
,,Á Íslandi höfum við ótrúleg tækifæri til að framleiða hreinan og hollan mat og finnst mér það ótrúlega spennandi.  Upphaflega hugmyndin var að kaupa sumarbústað í Borgarfirði þar sem ég gæti verið með gróðurhús og ræktað jarðaber og eitthvað af grænmeti.  Hilmar vann á Grundartanga og því var það hentug staðsetning,” segir hún og heldur áfram: ,,Við bjuggum í blokkaríbúð á Kleppsvegnum sem var gjörsamlega sprungin utan af okkar sex manna fjölskyldu og langaði að komast í sveitasæluna, þó það væri kannski bara með annan fótinn.”

hus_lindarbrekka
Lindarbrekka.

Keyptu jörðina á sanngjörnu verði
,,Eftir mikla leit að einhverju hentugu þá stækkuðum við leitarsvæðið og skoðuðum hér, þar sem allt var á floti eftir mikið rigningasumar. Okkur leist í fyrstu ekki vel á, hér var ekkert heitt vatn og hafði enginn búið hér síðan um 1980 og allt í frekar mikilli niðurnýslu, en hausinn fór á fullt og við sáum alls kyns hugmyndir sem gætu orðið að veruleika.  Við keyptum jörðina á sanngjörnu verði og þá var ekki aftur snúið.  Við seldum Kleppsveginn og stukkum út í djúpu,”segir Guðbjörg.

,,Hingað fluttum við í byrjun desember 2014 og þá byrjaði að snjóa og það mikið – vegurinn var niðurgrafinn og ekki fólksbílafært heim að bæ fyrr en í apríl 2015.  Síðan hefur vegurinn verið lagaður og verið fært hingað heim.”

kjot3

Mikið á sig lagt ef maður ætlar sér eitthvað
,,Útihúsin voru í mikilli niðurnýslu og erum við enn að bæta og breyta svo þau geti nýst sem best.  Þar var til dæmis ekki rennandi vatn þegar við byrjuðum og fyrsta sumarið var slanga frá íbúðarhúsinu nýtt til að brynna.  Og bárum við og keyrðum með 10 lítra fötur af mjólk í mjólkurkálfana alveg þangað til núna í febrúar 2017 þegar við fengum kálfafóstru sem við getum blandað í fyrir nokkra daga í einu, þeir hafa frjálsan aðgang að mjólk eins og ef þeir gengu með kúnni.  Með hverjum mánuðinum sem líður þá verða verkin auðveldari, en það er mikið á sig lagt ef maður ætlar sér eitthvað.   Vinnudagarnir eru oft langir og virðast verkefnin stundum standa í stað, en ef maður horfir bara 2 ár til baka þá hefur ótrúlega miklu verið áorkað.”

lindarbrekka_vinna
Bóndinn við störf.

,,Hilmar er alinn upp í Másseli í Jökulsárhlíð, austur á héraði en ég í Vík í Mýrdal og  í Reykjavík.  Bjó nú samt svo vel að eiga ömmu og afa í sveit á Búðarhóli í Landeyjum og hafði gaman af að vera þar og þar hef ég líklega fengið sveitabakteríuna,” segir Guðbjörg.

Spurð út í kjötframleiðsluna svarar Guðbjörg:   ,,Að framleiða kálfakjöt var enn ein tilviljunin. Við  ætluðum að vera með nautakjöt en húsin okkar henta ekki enn fyrir svo stórar skepnur og því prufuðum við að senda frá okkur sirka 9 mánaða gamla kálfa í desember 2015 og viðbrögðin voru góð og því höfum við bara haldið okkur þar – en höfum líka hug á að geta boðið uppá nautakjöt þegar fram líða stundir.”

,,Við erum með íslenskar landnámshænur og nokkrar kindur líka, og eigum lambakjöt til á haustin og stundum egg.  Á sumrin langar okkur líka að vera með nokkra grísi.  Stefnan er að halda áfram að stækka smátt og smátt og   gera aðstöðu þannig að við getum boðið gestum til okkar og jafnvel að geta boðið upp á gistingu.  En það eru víst bara 24 tímar í okkar sólarhring, þannig að það verður víst ekki alveg í bráð.”

kjot2

Kálfakjötið auðmeltanlegt og létt í maga
,,Okkar kjöt er af ca 9-10 mánaða kálfum, það er farið að taka á sig lit, en er ljósara og fíngerðara en nautakjöt, það er meyrt og mjúkt og hefur fengið að hanga vel.  Það er alveg hreint. Það er engin lyf, vatn eða önnur íblöndunarefni. Það er bragðgott,  auðmeltanlegt og létt í maga.”

,,Kálfarnir fá frjálsan aðgang að mjólk og kálfamúsli til þriggja mánaða aldurs, hey, vatn og kálfaköggla allan eldistímann og ást og umhyggju. Þeir fá að ganga úti frá vori og langt fram á haust en þó með aðgang að húsum ef þeir kjósa svo,” segir Guðbjörg.

Við seljum allar okkar afurðir beint frá býli – kostir þess eru margir eins og fullkominn rekjanleiki, milliliðalaus viðskipti persónuleg tengsl neytenda og framleiðanda, áhersla á góða umhirðu og aðbúnað dýra á bænum, kjötið er unnið af kjötiðnaðarmönnum með mikla reynslu, sveigjanleiki í viðskiptum þar sem tillit er tekið til þarfa kaupandans, 100% hreint kjöt, engin lyf, vatn eða önnur aukaefni og heimsending,” segir hún.

,,Við vorum að taka nýju heimasíðuna okkar í gagnið Lindarbrekka.is og svo erum við á Facebook,” úrskýrir hún og segir áður en kvatt er: ,,Hér í sveitinni líður okkur afskaplega vel, hér býr fullt af góðu fólki sem hefur stutt okkur og aðstoðað við hin ýmsu verk og værum við ekki komin svona langt með þetta ef ekki væri fyrir okkar frábæru nágranna.”

Facebook síða fjölskyldunnar.
Gefðu þér tíma til að skoða síðuna þeirra Lindarbrekka.is - frábært framtak.

snapp

Ellý Ármanns
Snapchat: earmanns
e@frettanetid.is