FréttanetiðBílar

Ertu að fara að kaupa bíl? Hafðu þá þessi SEX ATRIÐI í huga… og þú finnur rétta bílinn

Ef þú ert í bílahugleiðingum ættirðu að renna yfir þessi sex atriði og það skiptir ekki máli hvort þú ætlar að kaupa þér nýjan bíl eða notaðan.

1. Vertu með á hreinu hvað þú vilt

Ekki bara keyra stefnulaust um bílasölur til að sjá hvaða bílar eru á sölu. Vertu með ákveðna árgerð í huga og helst tegund. Þú getur jafnvel skoðað þig um á netinu og séð hvaða bílasölur selja bílana sem þú ert með í huga. Taktu síðan vin eða fjölskyldumeðlim með til að skoða bílana því betur sjá augu en auga.

2. Segðu sölumanninum að þú sért að skoða aðrar bílasölur

Láttu sölumanninn vita að þú sért að bera saman verð á svipuðum bílum á mismunandi bílasölum. Þá veit sölumaðurinn að hann verður að gefa þér sanngjarnt tilboð til að fá viðskipti þín.

3. Prófaðu allt í bílnum

Og já, við meinum allt! Hugsaðu líka hvort eitthvað í bílnum gæti farið í taugarnar á þér í daglega lífinu. Er erfitt að opna skottið? Eru geymsluhólfin mjög lítil? Eru engir glasahaldarar? Er auðvelt að komast inn og úr bílnum? Gengur hann fyrir bensíni, dísel eða öðrum orkugjöfum?

4. Sestu fyrir aftan stýrið og skoðaðu þig um

Hvernig virkar það sem þú notar á degi hverjum eins og útvarpið, miðstöðin og rúðuþurrkurnar? Er þetta einfalt í notkun eða skilurðu hvorki upp né niður í þessu?

5. Prufukeyrðu bílinn

Farðu nú í almennilegan bíltúr, ekki bara smá rúnt í kringum bílasöluna. Þá sérðu hvað hann eyðir, hvernig er að keyra hann á mismunandi hraða og hvort það séu einhver skringileg hljóð í honum. Ef þú verður var/vör við eitthvað þá er alveg málið að renna bílnum í gegnum ástandsskoðun ef þú hefur áhuga á að kaupa hann.

6. Ekki kaupa bílinn strax

Ekki gleyma að spyrja sölumanninn spjörunum úr. Er langt síðan var skipt um olíu? Hvernig eru tryggingarnar? Eru varahlutir dýrir? Ef sölumaðurinn hefur ekki svör á reiðum höndum þá ættirðu að færa viðskipti þín annað.