FréttanetiðFólk

,,Ég svelti líkama minn það mikið að ég var ekki fær um að hugsa skýrt” – MYNDIR

Beth Hall er 24 ára gömul stúlka frá Cambridge en hún sagði nýverið frá því að á tímabili innbyrgði hún eingöngu 10 kaloríur á dag. Hún sagði frá því hvernig hún þjáðist af átröskun en náði svo bata, frá því að vera við dauðans dyr þegar hún vóg aðeins 32 kg.

Beth var lögð í einelti í skóla og átti mjög erfitt. Þegar hún var orðin 16 ára gömul var mataræði hennar á þá leið að hún lifði einungis á svörtu te og kaffi. Hún var staðráðin í því að létta sig og lét hún jafnvel þrjá daga líða á milli þess sem hún borðaði nokkuð.

Eftir margra ára erfiðleika og baráttu var hún loks lögð inn á sjúkrahús þar sem lystarstolið sem hún þjáðist af var meðhöndlað. Í dag hefur hún náð fullum bata og er byrjuð í háskólanámi.

aa1 aa2

Beth hefur sagt frá því að hún sé „svo fegin því að hafa náð heilbrigðri vigt aftur, eftir að berjast við lystarstol. Það skipti aldrei máli hversu mörg kg ég missti, ég sá bara feitt svín blasa við mér þegar ég horfði í spegilinn. Ég losaði mig oftast við hádegisnestið í skólanum og þegar mamma greindist með húðkrabbamein árið 2008 þá átti ég auðvelt með að leyna mataræðinu þar sem hún undirgekkst meðferð á spítala.“

aa3

Beth hefur einnig greint frá því að þegar hún lét þrjá daga líða án þess að borða mat þá var hún samt sem áður fullviss um það að ekkert amaði að sér.

„Ég lifði á svörtu kaffi og te sem eru um það bil 10 kaloríur á dag. Ég svelti líkama minn það mikið að ég var ekki fær um að hugsa skýrt.“

Beth neyddist til þess að hætta í skólanum árið 2009 þegar átröskunin hafði náð tökum á lífi hennar og hún átti í erfiðleikum með að sinna náminu.

„Ég gat ekki einbeitt mér að neinu öðru heldur en mat. Sjúkdómurinn minn var orðinn stjórnlaus og ég grenntist meira með hverjum deginum sem leið. Ég fékk að lokum vinnu sem sölukona, í súkkulaðiverslun sem er frekar kaldhæðnislegt. Ég var orðin veikburða og vissi í raun ekki hversu mikið meira líkami minn þoldi.“

aa4

Árið 2011 fékk Beth sýkingu í nýrun sem varð til þess að læknarnir vöruðu hana við og tjáðu henni að  hún væri að hætta lífi sínu með því að svelta sig. „Læknirinn sagði mér að hann gæti þreifað á öllum líffærunum mínum undir húðinni og að ég myndi drepa mig með því að halda þessu áfram. Ég gerði mér loks grein fyrir því að ég þyrfti á hjálp að halda og þegar nýrnasýkingin hafði jafnað sig lagðist ég inn á sjúkrahús.“

Meðferðin sem Beth fékk var henni bæði erfið og krefjandi. „Ég hataði að þurfa að borða matinn sem þau gáfu mér og að bæta á mig aftur en ég vissi að ég yrði að vera þarna.“

Beth fór einnig í daglega hópmeðferð og fór smátt og smátt að finna fyrir bata. Eftir fjögurra mánaða dvöl og meðferð fékk hún að fara heim.

„Ég stjórnaði loksins máltíðunum mínum aftur og gat nýtt mér hópatímana áfram,“ sagði Beth um líðan sína í kjölfar meðferðarinnar sem hún hlaut á sjúkrahúsinu.

Þrátt fyrir að hafa upplifað bakslag ári síðar þá er hún í dag komin aftur í háskólann og er í hlutastarfi.

„Ég er núna í grafískri hönnun í Anglia Ruskin háskólanum í Cambridge. Mér hrakaði aftur en hóptímarnir hjálpuðu mér að ná aftur stjórn á mataræðinu. Öll fjölskylda mín, líka litla systir mín hún Georgina, hafði svo miklar áhyggjur af mér þegar ég léttist svona mikið. Þetta hefur verið öllum mikill léttir að ég hef náð stjórn á aðstæðum og er komin í heilbrigða vigt aftur. Ég veit að sjúkdómurinn minn verður alltaf til staðar en núna veit ég hvernig ég tekst á við hann. Ég vona að aðrar stúlkur sem heyra mína sögu muni öðlast von út frá öllu því sem ég hef náð að gera. Það er alltaf hægt að fá aðstoð og sama hversu einangruð þér finnst þú vera, þá verða aðstæður betri og þú getur sannarlega sigrast á átröskun.“

Lóa Guðrún Kristinsdóttir
Fréttanetið