FréttanetiðFólk

Ef vinnudagurinn var erfiður… þá er þetta skyldulesning… 7 mínútur sem breyta öllu

Það tekur aðeins sjö mínútur að breyta nálgun þinni gagnvart vinnudeginum. Með því að fara í gegnum áhrifaríka morgunrútínu um leið og þú mætir til vinnu getur þú aukið afköst vinnudagsins til muna og haft jákvæð áhrif á hugarfar þitt og velgengi. Þú getur í raun haft mikil áhrif á daglega líðan þína með því að skapa þér einfaldar en góðar venjur strax í upphafi hvers dags. Þetta er alveg eins og á golfvellinum, þú skipuleggur sveifluna vel og vandlega áður en þú svo sveiflar á ígrundaðan hátt.

Áður en þú tekst á við vinnudaginn af fullum krafti þá mun eftirfarandi morgunrútína koma þér í rétta hugarfarið til þess að afkasta enn meiru heldur en þú hefur áður gert.

Áður en vinnudagurinn hefst, undirbúðu þig. Fyrst þarft þú að finna þér kyrrlátan stað, ekki í bílnum þínum eða í básnum þínum í vinnunni (ef þú vinnur í opnu rými). Þú getur orðið fyrir alltof mörgum truflunum á slíkum stöðum. Þessi kyrrláti staður getur jafnvel verið í anddyri vinnustaðarins eða úti á svölum, einhvers staðar þar sem þú getur verið út af fyrir þig. Þú gætir þurft að mæta örlítið fyrr á morgnana til þess að láta þetta ganga upp.

Þú þarft einnig á dagbók að halda. Gakktu úr skugga um að þú hafir eina slíka og að sjálfsögðu penna. Einnig skaltu vera með úr á þér, þú skalt taka tímann og gefa þér eingöngu sjö mínútur fyrir þessa áhrifaríku morgunrútínu.

Mínúta 1: Hreinsaðu hugann
Allir þurfa á því að halda að hreinsa hugann af og til. Geymdu því símann og iPadinn í smá stund og leggðu allt slíkt til hliðar. Síminn er ekki hluti af morgunrútínunni. Þegar þú hreinsar hugann snýst það hreinlega um að vera „á staðnum“ á meðan þú undirbýrð þig fyrir daginn.

Mínúta 2: Andaðu smá
Þú ert kannski vön eða vanur því að fást við álag og stress sem þú finnur fyrir dags daglega með öðrum hætti heldur en með önduninni einni saman. Það að draga djúpt andann skapar ákveðið slökunarástand í heila sem auðveldar þér að einbeita þér. Meðvituð öndun er mikilvæg á öllum tímum dagsins. Til þess að þessi aðferð takist hjá þér er mikilvægt að stoppa og kyrra hugann og koma þér í rétt hugarástand. Sittu bara kyrr og andaðu.

Mínúta 3 til 6: Skrifaðu niður í dagbók og teiknaðu
Þú hefur eflaust heyrt talað um ágæti þess að halda dagbók en hér eru áherslur á annan veg en oft er með dagbækurnar. Margir hafa dagbók til taks allan daginn, strax eftir að farið er á fætur, yfir fyrsta kaffibolla dagsins, á kvöldin áður en farið er að sofa og á fundum og ráðstefnum.

Hér í morgunrútínunni er ekki eingöngu átt við hefðbundin dagbókarskrif. Hér er áherslan sú að skrifa niður þær fyrstu hugsanir sem koma upp eftir að þú mætir til vinnu en áður en þú hefst handa við verkefni dagsins. Þú getur jafnvel teiknað mynd í dagbókina þína sem tengist þessum hugsunum eða rissað upp hugmynd sem þú færð.
Þetta er góð leið til þess að gera sér betur grein fyrir þeim verkum sem eru mikilvægust og hvað það er sem veldur þér jafnvel mestum áhyggjum. Ef þú notar dagbókina þína með þessum hætti verður hún góður gagnabanki fyrir ýmis konar undirbúning og frábær leið til þess að geta litið til baka og skoðað hvað var raunverulega mikilvægt í þessar sjö mínútur hvers dags. Varaðu þig samt á því að skrifin verði ekki of nákvæm eða fari að snúast um of mikil smáatriði á kostnað hugarflæðisins.

Mínúta 7: Yfirferð
Þegar þú hefur lokið við að skrifa niður nokkur atriði hvern morgun, passaðu þig þá á því að fylgjast vel með tímanum og vera viss um að eiga um eina mínútu eftir til þess að fara yfir það sem þú skrifaðir.

En hvað þýðir það samt eiginlega…að fara yfir það sem þú skrifaðir? Líttu einfaldlega aftur yfir athugasemdirnar þínar. Hugleiddu þau atriði sem þú skrifaðir niður og af hverju þau rötuðu niður í dagbókina þína. Útbúðu stutt skipulag á aðeins 30 sekúndum, til þess að koma í verk einu af þessum atriðum sem þú skrifaðir niður. En eingöngu einu atriði. Ef þú til dæmis skrifaðir niður minnispunkt þess efnis að takast á við ágreining við vinnufélaga eða að ljúka vinnuskýrslu, ákveddu þá að einbeita þér að því verkefni með fullum huga.

Sjö mínútur er allt sem þarf
Svona er morgunrútínan. Sjö mínútur. Prófaðu að fara eftir þessari morgunrútínu í eina viku til að byrja með. Að viku liðinni skaltu gefa þér tíma til þess að skoða hverju þú náðir að afkasta og koma í verk. Það gæti komið þér á óvart hversu miklu þú munt ná að áorka.   - Heimild: John Brandon.
Loa
Lóa Guðrún Kristinsdóttir
Fréttanetið