FréttanetiðHeilsa

Borðar þú ALLTOF MIKIÐ á kvöldin? Þetta er ástæðan… og hún er mjög einföld

Margir finna fyrir því að verða mjög svangir eftir klukkan átta á kvöldin og eiga það til að gúffa í sig alls kyns óhollustu fyrir svefninn. Sumir einfaldlega ráða ekki við sig.

Að sögn næringarfræðingsins Stephanie Clarke er ástæðan fyrir þessu mjög einföld en þeir sem borða mikið eftir kvöldmat hafa líklegast ekki borðað nóg yfir daginn.

„Ef þú borðar ekki nóg yfir daginn fær líkami þinn ekki nóg af kaloríum og/eða næringarefnum til að vera sáttur og koma lagi á orkuna þína. Það þýðir að þér finnst þú vera svangur og pirraður. Og ef þú ert mjög svangur ertu líklegri til að grípa það fyrsta sem þú sérð – eins og poka af flögum eða nokkrar smákökur – og borða það í einum hvelli,“ segir Stephanie.

Þá bætir hún við að ef þú ert að reyna að forðast viss matvæli allan daginn getur þú fengið þau á heilann og þráð ekkert meira en að borða þau. Þess vegna gætirðu freistast til að fá þér þessi matvæli, sem oftar en ekki eru óholl, á kvöldin.

Rannsóknir sýna að margar konur innbyrða næstum því helming af ráðlögðum dagskammti af kaloríum eftir kvöldmat þannig að ef þessi lýsing passar við þig ertu ekki ein í heiminum.