FréttanetiðFólk

Besta sjávarréttapizza fyrr og síðar… æðisleg í matarboðið … fullkomin í kvöldmatinn – MYNDBAND

Sigurþór Gunnlaugsson er ástríðukokkur með áhuga á flestu sem viðkemur matargerð, allt frá þjóðlegum íslenskum mat upp í framandi rétti frá ýmsum heimshornum. Í meðfylgjandi myndskeiði sýnir hann okkur hvernig útbúa má sjúklega góða sjávarréttarpizzu eins og þær gerast bestar.  Í þessum stutta matreiðsluþætti sýnir Sigurþór hvernig hann eldar bestu pizzu sem þú átt eftir að smakka á einfaldan hátt.

Sigurþór 09
,,Eldamennska er mín jarðtenging, slökun frá daglegu amstri og mér finnst fátt skemmtilegra en að matreiða eitthvað nýtt og spennandi og fá góða gesti í mat,” segir Sigurþór sem sýnir lesendum Fréttanetsins í meðfylgjandi myndskeiði hvað það er auðvelt að matreiða þessa snilld.

Sjúklega góð sjávarréttapizza með hvítlauksolíu fyrir tvo
Deigið dugar í sex þunnar pizzur.

Hráefni:
1 ¼ bolli af volgu vatni
1 pakki af þurrgeri
1 msk hunang
2 msk olífu olía (jurtaolía)
3 bollar af hveiti
1 1/2 tsk salt

Deigið –  aðferð:
Blandið volgu vatni, þurrgeri, hunangi og olíu saman í hrærivélaskál (setjið á ,,deigkrók”). Þegar gerið er farið að leysast upp – þið sjáið það af litlum loftbólum í deiginu – þá er þremur bollum af hveiti bætt við og byrjað að hræra. Þegar hveitið er nokkuð vel blandað gerblöndunni þá er 1 og hálfri teskeið af salti bætt við. Ef þörf er á má bæta við allt að 1/2 bolla af hveiti. Þegar allt er búið að blandast vel saman losið deig úr skál og byrjið að hnoða á borði í sirka 10 mín. Þegar deigið er orðið teygjanlegt og mjúkt þá er þetta komið. Leyfið því að hefast í 30 mín.

Heimagerð hvítlauks olía, hráefni:
½ bolli af olífu olíu
5 sneiddir hvítlauksgeirar
Ein grein af rósmarín
Dash af chilipipar flögum

Heimagerð hvítlauksolía –  aðferð:
Allt sett í pott og látið malla við vægan hita í sirka tíu mínutur. Fylgist bara vel með, því það þarf að passa að hvítlaukurinn brenni ekki.

Snúið ykkur aftur að deigi:
Þegar pizzadeigið og olían eru tilbúin mótið þá botninn. Stráið hveiti á borðplötu. Fletjið einn sjötta part af deigi út á plötunni (hægt að geyma rest af deigi
í ísskáp í 3 daga).

Markmiðið er að fletja deigið út í botn, sem er jafnstór pönnunni sem á að nota.
Þykktin er síðan smekks atriði, sumir vilja þykkan botn, aðrir þunnan.
Setjið deigið á forhitaða pönnuna. Gott að vera búin/n að setja smá oliu áður.
Þegar bólur fara að myndast í botninum, þá má pensla hann með hvítlauksolíunni.

Álegg er að eigin vali, en Sigurþór notar eftirfarandi:
Tvær gerðir af osti, Mozarella kúlur og parmezan ostur.
Sjávarréttir frá Sælkerafiski.
Dreifið vel úr á botni.

Skellið því næst pönnu með pizzunni inn í forhitaðan ofn (losið handfang af pönnu) og bakið í ca. 10 mínútur við hæsta mögulega hita (allt að 250°C).

Þegar pizzan er tilbúin, takið hana úr ofni (skellið köldu handfangi aftur á).
Skreytið með klettasalati og hellið hvítlauksolíu yfir áður en hún er borin fram.

Sigurþór 06

Verði ykkur að góðu.