FréttanetiðHeilsa

Af hverju beita börn ofbeldi? Sálfræðingur segir ýmsar ástæður að baki… „Börn sem beita ofbeldi líður ekki vel sjálfum“

„Börn sem beita ofbeldi líður ekki vel sjálfum. Eitthvað hefur gerst í þeirra lífi eða þau skort eitthvað sem veldur því að þau eiga erfitt með að setja sig í spor annarra, eru reið, örg og finna hjá sér hvata til að meiða önnur börn. Vanlíðan þeirra er hvatinn að neikvæðri hegðun þeirra. Þetta sést best hjá þeim börnum sem leggja önnur börn í einelti,“ segir sálfræðingurinn Kolbrún Baldursdóttir. Fréttanetið leitaði til hennar með spurninguna af hverju sum börn beita ofbeldi og hvað sé hægt að gera til að snúa þessari hegðun við.

Kolbrún Baldursdóttir.

Kolbrún Baldursdóttir.

Margar birtingarmyndir ofbeldis

Kolbrún segr að orsakir ofbeldishegðunar geti verið margvíslegar og gefur lesendum nokkra punkta til að styðjast við:

 • Persónuleikaeinkenni s.s. pirringur, öfundsýki, áhrifagirni, aðrir brestir
 • Vandamál í skóla/námi
 • Röskun (ADHD, Einhverfa/róf, Asberger, önnur veikindi)
 • Erfiðar heimilisaðstæður
 • Skortur á aga í uppeldi/siðferðisuppeldi, börn sem ekki hafa fengið fræðslu um muninn á réttu og röngu og sem foreldrar hafa jafnvel varið neikvæðar gjörðir þeirra

„Ofbeldisfull hegðun getur birst á ýmsan hátt, til dæmis í skapofsaköstum, árásargirni, slagsmálum, hótunum eða tilraunum til að meiða aðra, notkun á hvers konar vopnum, grimmd í garð dýra, íkveikjum og skemmdum á eignum,“ segir Kolbrún. Hún bendir á að ýmsar rannsóknir hafi leitt í ljós að flókin samsetning og víxlverkan ýmissa þátta auki líkur á ofbeldishegðun barna og unglinga. Hér fyrir neðan rekur Kolbrún þessa þætti:

 • Fyrri árásargirni eða ofbeldisfull hegðun, þegar einu sinni er búið að gera eitthvað neikvætt er auðveldara að gera það aftur sérstaklega ef það eru engar afleiðingar
 • Að hafa þolað ofbeldi af einhverju tagi getur verið áhættuþáttur
 • Áhrif af ofbeldi innan fjöskyldu eða samfélags
 • Erfðafræðilegir þættir (erfið skapgerð, pirringur og lágt mótlætaþol)
 • Áhrif ofbeldis í fjölmiðlum (sjónvarpi, kvikmyndum o.s.frv.)
 • Samblanda af erfiðu fjölskyldulífi (fátækt, vanræksla, skilnaður, atvinnuleysi, skortur á stuðningi frá fjölskyldu)
 • Ofneysla eiturlyfja og/eða áfengis
 • Ábyrgðarlaust tal t.a.m. um skotvopn og ef fyrirmynd, s.s. foreldri, virðist ræða um vopn, vopnaburð og dráp af ábyrgðarleysi
 • Afleiðingar höfuðáverka sem leitt hafa til heilaskaða

Kolbrún bætir við að hægt sé stundum að greina snemma ákveðin viðvörunarmerki um líkur á ofbeldishegðun. Ef barnið verður ofboðslega reitt, verður hamslaust í reiðiástandi sínu eða ef barn hefur lágt mótlætaþol, pirrast og reiðist fljótt og er hvatvíst í hegðun þá getur það þróað með sér ofbeldishegðun ef ekki er tekð strax á málum með viðeigandi hætti.

ofbeldi

Börn geta orðið ónæm fyrir ofbeldi

Kolbrún telur þarft að foreldrar fylgist með því sem börnin þeirra horfa á í sjónvarpinu og hvaða tölvuleiki þau spili. Þá hvetur hún foreldra einnig til að fylgjast með hvað börnin þeirra eru að gera heima hjá vinum.

„Margir vilja kenna tölvum og sjónvarpi um ofbeldishegðun barna, það er að þau börn sem beita ofbeldi af einhverju tagi hafi horft of mikið á ljótar myndir eða spilað of marga ofbeldisfulla tölvuleiki. Þessir þættir, tölvur sem dæmi og netið, eru komnir til að vera í okkar lífi og verða alltaf stærri og stærri hluti af okkar daglega lífi. Vissulega hefur þetta áhrif og sérstaklega ef foreldrar nota þetta sem uppeldistæki eða barnfóstrur þannig að börnin eyði jafnvel klukkustundunum saman fyrir framan stafræna afþreyingu svo sem tölvu- og sjónvarpsskjái,“ segir Kolbrún en vill undirstrika að ekki allt í tölvuleikjum sé slæmt.

„Sumt efni er af hinu góða og hefur þroskandi áhrif á barnið, til dæmis eykur einbeitingu og snerpu. Annað efni er sannarlega ekki við hæfi. Seljendur eru náttúrulega margir hverjir kannski ekki mikið að spá í hvað hentar hagsmunum barna best svo fremi sem varan selst. Því fleiri sem kaupa því meira er framleitt af slíku efni. Mikið er til af uppbyggilegu fræðsluefni fyrir yngri kynslóðina svo enginn þarf að kaupa ofbeldisfulla tölvuleiki vegna þess að annað efni sé ekki til.“

Hún segir að börn geti þjálfað ónæmi fyrir alls kyns ofbeldi ef þau horfa oft á slíkt efni, til dæmis í sjónvarpinu.

„Börn sem fá að horfa á gróft ofbeldisefni frá unga aldri venjast því fljótt og finnst ofbeldi ekki tiltökumál, til dæmis hvort einhver er afhausaður eða pyntaður, nauðgað eða drepinn. Börn þjálfa þannig ónæmi fyrir ofbeldi og þjáningu annarra ef þau horfa mikið á ofbeldi á þeim aldri sem þau eru hvað mest móttækileg og opin fyrir áreiti umhverfisins. Því meira sem þau sjá af ógeðslegum hlutum því meira verður þolið gagnvart þeim. Tileinki þau sér ofbeldisfulla hegðun á annað borð getur verið auðveilt fyrir þau að fara yfir mörkin hafi þau horft á eða orðið vitni af ofbeldi frá unga aldri. Myndirnar af ofbeldinu í höfði barnsins verða stundum hluti af veruleika þess. Svo er bara spurning hvort barnið ræður við að halda þessu sér og afmörkuðu eða hvort það hermir eftir, og tekur þá upp einhverja takta, orð eða atferli sem það hefur séð í sjónvarpinu.“

ofbeldi3 

„Á netinu leynast margar hættur“

Kolbrún biður foreldra um að passa sig á netinu þó það sé til margra hluta gott.

„Foreldrum er ráðlagt að takmarka sjónvarpsáhorf ungra barna sinna og alls ekki leyfa þeim að hafa óheftan aðgang að netinu. Á netinu leynast margar hættur og síður sem eru varasamar dúkka upp við hið minnsta. Þeir sem gera út á að tæla börn á netinu finna leiðir til að vekja áhuga barna og jafnvel þótt barn hafi ekki verið að leita er það oft dottið inn á síður sem sýna ofbeldi, klám, og aðra óæskilega þætti sem innihalda kynferðisleg atriði, drykkjuskap, fíknefnaneyslu og ýmislegt annað sem er ekki við hæfi barna. Allt þetta hefur áhrif á ómótaðan karakter barns og getur orðið eitthvað sem barnið vill taka sér til fyrirmyndir, finnst spennandi og skemmtilegt. Því er líklegra að hugsunarháttur barnanna til þessara efna mótist af þessu myndefni,“ segir Kolbrún.

„Séu foreldrar sjálfir uppteknir af ofbeldismyndum sér barnið það og ályktar að það sé í lagi þar sem mamma og pabbi horfi á þetta og finnst þetta skemmtilegt,“ segir hún.

„Ofbeldi mun aldrei hverfa úr þessum heimi og ef eitthvað er þá er það algengara nú en áður að sýnt sé gróft ofbeldi á skjánum auk þess sem hræðilegasta ofbeldi má finna á netinu. Þannig má segja að það sé ef til vill ekki nokkur leið að vernda börn algerlega fyrir því hvorki í myndum né máli. Það bara að þau horfi á fréttir sjá þau og heyra frásagnir og lýsingar af svæsnu ofbeldi. Leiðbeiningar, fræðsla og umræða er því nauðsynleg ef barnið á ekki að halda að hér sé um eitthvað norm að ræða og til að tryggja sem best að þau greini rétt frá röngu og hvar almenn mörk liggja í samskiptum.“

????????????????????????

Sálræn veikindi foreldra geta veikt þá í uppeldishlutverki

Kolbrún bendir einnig á að uppeldi skipti máli í þessu sambandi. Til að barn geti þroskað með sér heilbrigt tilfinningalíf þarf því að vera sinnt allt frá því að það verður til í móðurkviði. Barn sem er vanrækt til lengri tíma á ekki alltaf sömu möguleika og önnur börn að greina rétt frá röngu eða lesa skynsamlega í áreiti umhverfisins.

„Barni sem ekki sinnt, það vanrækt andlega og likamlega er hætt við að verða fyrir alvarlegum skaða sem mun hafa áhrif ekki bara á andlega líðan þess heldur samskipti við aðra og almenna velgengni í lífinu.“

Sumir foreldrar, segir Kolbrún, líður það illa sjálfum að þeir hafa einfaldlega ekki burði til að setja börnum sínum mörk.

„Foreldrum sem glíma sjálfir við andlega vanlíðan eða geðræn vandamál skortir stundum þrek og áræðni til að setja börnum sínum mörk. Sektarkennd þeirra verður til þess að þeir gefa frekar eftir og treysta sér ekki til að gera kröfur sem hæfir aldri þeirra og þroska. Þannig getur sálræn veikindi foreldra veikt þá í foreldrahlutverkinu. Það er ekki að þeir vilji ekki geta sinnt foreldrahlutverkinu heldur frekar að þeir geta það ekki vegna veikinda. Í þessum málum þarf samfélagsaðstoðin að koma ínn í allt eftir því hvar skólinn kreppir. Hvað sem öllu líður er líðan og hegðun barna á ábyrgð foreldra þeirra nema sýnt þykir að þeir ráði ekki við hlutverkið og þarfnast þar að leiðandi aðstoðar. Aðrir sem koma að barninu skipta miklu máli bæði sem fræðarar en einnig sem verndarar. Stjórnvöld hafa það hlutverk að horfa til barnasáttmálans og fylgja honum í hvívetna þegar kemur að lagasetningum er varða börn og hagsmuni þeirra.“

 ofbeldi4

Ítrekaðar skammir tapa áhrifamætti sínum

En hvað er til ráða ef barn sýnir af sér ofbeldisfulla hegðun?

„Ef foreldri eða aðrir fullorðnir verða vitni að ofbeldisfullri hegðun hjá barni sínu þarf að taka á því strax. Ræða þarf við barnið um hegðunina og að slík hegðun sé ekki liðin. Einni að útskýra hvernig slík hegðun geti verið félagsleg hindrun á vegi þeirra. Mikilvægt er að hjálpa barninu að finna aðrar leiðir til að fá útrás fyrir gremju, reiði og pirring. Foreldrar sem upplifa vanmátt í því að hjálpa barnin sínu að slökkva á óæskilegri hegðun ætti að leita ráða hjá fagmanni.  Stundum er vandinn ekki einungis barnsins heldur er hegðun þess meira viðbrögð við erfiðleikum í fjölskyldunni. Þá þarf að taka á vandamálinu heildstætt, með fjölskyldu og skólanum líka ef því er að skipta. Allir foreldrar hafa gott og gagn að því að skoða sig sem foreldrar með gagnrýnu auga. Spyrja má:

 • Eru foreldrar samstíga?
 • Er ástúð og umhyggja?
 • Er samvera?
 • Er fræðsla og samtöl?
 • Er jákvætt andrúmsloft á heimilinu, hlegið, grín og gaman
 • Hrós og hvatning?
 • Festa og aðhald og viðeigandi reglur sem fylgt er eftir?“

Kolbrún vill einnig ítreka að ef nota á skammir þarf að nota þær sparlega og ættu þær að vera mildar. Að hennar mati er mikilvægt að skammir komi fljótlega í kjölfar hegðunar sem verið er að skamma fyrir og að þeim sé beint að hegðuninni en ekki persónunni.

„Ítrekaðar skammir tapa auðveldlega áhrifamætti sínum og eru til þess fallnar að skapa reiði, pirring, hatur og mótþróa. Skammir og þras sem eru komin úr böndum þurrka oft út hlýjar og mildar tilfinningar og getur ef ekki er að gáð brotið niður sjálfsmynd barnsins og sjálfstraust,“ segir Kolbrún. Aðrar skaðlegar uppeldisleiðir að hennar mati eru ef barn fær umbun fyrir að sýna óþekkt, að barn sé ávítað fyrir æskilega heðgun og ef barn er ekki ávítað þegar það hagar sér illa. Þá bætir hún við að umbunar- og styrkingarkerfi geti í mörgum tilfellum leyst skammir af hólmi. Hægt er að sækja uppeldistækninámskeið til að læra að nota hvatningarkerfi með árangursíkum hætti, til dæmis tækni sem byggir á pmt foreldrafærni.