FréttanetiðFólk

50 kg LÉTTARI – ,,TRÓÐ í MIG eins og BOTNLAUS væri við HVERT TÆKIFÆRI”

,,Í gegnum grunnskóla var ég alltaf feiti strákurinn. Ég var þybbni strákurinn á fótboltaæfingum sem var hringaður þegar  allir áttu að hlaupa í upphitun um völlinn. Ég var hafður í vörn því þar þurfti ég minnst að hlaupa. Ég þekkti ekkert annað en að vera stór og mikill því þannig hafði ég alltaf verið,” segir Skúli Bragi Magnússon, 23 ára, sem hefur  heldur betur breytt um lífstíl  með vægast sagt frábærum árangri. Hann segir sigurinn felast í því að sigra sjálfan sig.

Tók blóðþrýstingslækkandi lyf
,,Mér fannst gott að borða og tróð því í mig eins og botnlaus væri við hvert tækifæri. Ég var að borða til að vera stór og sterkur, því þannig sá ég mig þegar að raunin var sú að ég var bara að fitna og fitna. Árið 2008 þegar að ég útskrifaðist úr grunnskóla og gekk í menntaskóla áttaði ég mig fyrst fyrir alvöru á því ástandi sem ég var búinn að koma sjálfum mér í. Þá var ég kominn yfir 130 kíló og farinn að taka blóðþrýstingslækkandi lyf. Ég var oft veikur og slappur og ég fann hvernig líkaminn var að byrja að bregðast mér. Það var þá sem ég ákvað að nú þyrfti ég að grípa í taumana og gera eitthvað. Í dag er ég 80 kg og þar af 2,5% fitu. Ég tek ekki lengur lyfin mín og hef úthald til þess að æfa tvisvar á dag alla daga vikunnar. Ég hef fengið heilsuna mína aftur og hef aldrei liðið betur.”

Byrjaði á að taka allt óhollt út úr mataræðinu
Hvernig fórstu að þessu?  ,,Þegar ég tók fyrst ákvörðun um að breyta til þá ákvað ég að fara í megrun. Ég byrjaði á að taka allt óhollt út úr mataræðinu. Það gekk svona í 2-3 vikur áður en ég sprakk á límingunum og byrjaði aftur á byrjunarreit. Ég prófaði að borða minna en þá varð ég bara svangur og það entist ekki lengi heldur.

Hætti að drekka gos
,,Eftir alls konar kúra og megrunaraðgerðir sá ég að það sem ég þurfti á að halda var lífstílsbreyting. Ég byrjaði smátt og tók hænuskref. Hætti að drekka gos og bara það. Gaf því sinn tíma þar til öll löngun í gos var horfin. Þá tók ég út snakk, því næst karmellur, svo hlaup, síðan súkkulaði og svo koll af kolli. Þegar að löngun í eitt hvarf þá valdi ég það sem var næst á listanum til að losa mig við. Árangurinn kom hægt en mér fór aldrei aftur. Yfirleitt var það ekki fyrr en maður hitti ættingja og vini sem maður sá sjaldan sem fólk tók yfirleitt eftir því að maður væri yfir höfuð að léttast eitthvað. Ég var þó alltaf meðvitaður og hélt mínu striki.

Tók út allt brauð = árangur
,,Smátt og smátt fór vigtin niður samhliða mataræðisbreytingunum. Þegar  loks öll sætindi voru fjarri tók ég út allt brauð nema um helgar, því ég elska brauð, og þá kom mikið skrið á árangurinn. Þegar matarræðið var komið í góðar skorður fór mig þó að langa til að taka átakið lengra. Styrkja mig og bæta úthaldið. Fyrst fór ég sjálfur og lék mér í tækjunum í ræktinni en síðan dró einn af mínum allra bestu vinum, Sindri Már Hannesson, mig með sér í einkaþjálfun hjá Jóni Bónda. Hann kenndi okkur undirstöðuatriðin í lyftingum og þá lét árangurinn ekki standa á sér. Við æfðum fjórum sinnum í viku. Síðan fór ég að lyfta sjálfur eftir það milli 2011-2014 þegar ég svo loks lét slag standa og ákvað að keppa. Þar hafa Jói Norðfjörð og Sigurður Gestsson hjá Fitness Akademíunni hjálpað mér með allan undirbúning,” segir hann einlægur.

Sigurinn felst í að sigrast á sjálfum mér
,,Ég stefni á að stíga á svið í Sportfitness núna 2. apríl næstkomandi á Íslandsmóti IFBB. Sigurinn felst í að sigrast á sjálfum mér og komast alla leið uppá svið. Ferlið hefur verið langt og strembið en ótrúlega lærdómsríkt. Mér var sjálfum brugðið þegar að ég bar saman myndir af mér fyrir og eftir. En innst inni veit ég að ég ætla aldrei aftur í gamla farið. Líkamsræktin og holla matarræðið er mér algjörlega sjálfsagður partur af daglegri rútínu. Ég stefni á að halda ótrauður áfram. Hvort ég fari á svið aftur verður tíminn einn að leiða í ljós en ég mun halda áfram í að vinna í sjálfum mér, lifa sem heilbrigðustu lífi og rækta tengslin milli hugar og líkama,” segir Skúli þegar við kveðjumst.
e@frettanetid.is